Release details

2017-02-16 18:21 CET
 • Print
 • Share Share
is

Skeljungur: Ársuppgjör 2016

Skeljungur hf.  | 16. febrúar 2017
Ársuppgjör 2016

Viðburðaríkt metár að baki

Ársreikningur Skeljungs hf. fyrir rekstrarárið 2016 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 16. febrúar 2017. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Endurskoðendur félagsins, KPMG ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann án fyrirvara.

 • Hagnaður á hlut var 0,56 en var 0,1 á árinu 2015.
 • Besta rekstrarár í sögu félagsins.
 • Aukinn markaðshlutdeild í þremur af fjórum eldsneytistegundum.
 • Framlegð ársins  nam 7.283 m.kr. og eykst um 7,1% frá fyrra ári - framlegð fjórðungsins nam 1.582 m.kr. og jókst um 6% á milli ára.
 • EBITDA hagnaður ársins nam 2.763 m.kr.  sem er 3,3% aukning milli ára - EBITDA hagnaður í fjórðungnum nam 461 m.kr. sem er aukning um 24,9%.
 • EBITDA framlegð ársins var 37,9% miðað við 39,3% árið áður.
 • Hagnaður ársins nam 1.262 m.kr. samanborið við 1.124 m.kr. árið 2015* sem er 12,3% aukning milli ára.
 • Arðsemi eigin fjár var 16,9% samanborið við 13,8% á árinu 20151.
 • Eigið fé þann 31.12. nam 7.112 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 38,9% í árslok.

             

Lykiltölur

    2016 2015 %   4F 2016 4F 2015 %
Framlegð   7.283 6.798 7,2%   1.581 1.498 5,6%
EBITDA   2.763 2.675 3,3%   462 369 25,2%
EBIT   2.050 1.895 8,2%   280 136 105,9%
Hagnaður   1.262 1.124 12,3%   157 38 313,2%
Launakostnaður/framlegð   30,6% 30,5% 0,3%   37,3% 38,4%   -2,9%
Sölu.dreif.kostn./framlegð   26,0% 27,3% -4,8%    33,0% 31,4%  5,1%
Rekstrarkostn./framlegð   64,0% 64,1% -0,2%   73,2% 73,7% -0,7%
Arðsemi eigin fjár1   16,9% 13,8% 22,5%   9,1% 1,9% 378,9%

   

  [1] Hagnaður og arðsemi eigin fjár án virðisrýrnunar 2015

Horfur fyrir árið 2017

Gert er ráð fyrir að hagfelld skilyrði verði á mörkuðum félagsins miðað við spár greiningaraðila, sem gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og fjölgun ferðamanna. Í afkomuspá félagsins er gert ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði. Styrking íslensku krónunnar mun áfram hafa áhrif á rekstrarniðurstöður félagsins, sér í lagi gagnvart dönsku krónunni, vegna erlends hluta starfseminnar. Bent er á að við umreikning reikningsskila er notast við meðalgengi innan ársins. Á árinu 2016 var meðalgengi DKK/ISK 17,94. Áætlanir félagsins miða við meðalgengi  DKK/ISK 16,7. Þá er gert ráð fyrir samningsbundnum launahækkunum auk þess sem horft er til innkomu nýrra aðila á markað.
Félagið gerir ekki breytingar á áætlunum sem kynntar voru í aðdraganda skráningar og reiknar með að EBITDA ársins verði á bilinu 2.400 - 2.700 m.kr. og fjárfestingar liggi á bilinu 750 - 850 m.kr.

Síðla árs 2016 samþykkti stjórn arðgreiðslustefnu fyrir félagið. Stefnan gerir ráð fyrir að á bilinu 30-50% af hagnaði hvers árs verði greiddur út í formi arðs eða endurkaupa eigin bréfa. Eins og fram kom í lýsingu félagsins þann 14. nóv. sl. mun stjórn leggja til við aðalfund að ekki verði greiddur arður fyrir rekstrarárið 2016.

Árið 2016 í hnotskurn

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs:

"Niðurstaða ársins 2016 er ánægjuleg og sýnir að þær stefnuáherslur sem við höfum verið að innleiða undanfarin ár eru að skila sér. Árið var í senn metár í rekstri Skeljungs og viðburðaríkt, þar sem hæst bar taka hlutabréfa í Skeljungi til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland en undirbúningur þess litaði óhjákvæmilega starfsemina á árinu. Stóraukin sala til erlendra aðila, aukin markaðshlutdeild og umsvif voru einkennandi fyrir árið. Kröftugur hagvöxtur er á báðum mörkuðum félagsins og spár um framtíðarhorfur jákvæðar. Við lítum björtum augum fram á veginn bæði hér heima og í Færeyjum og byggjum á sterkum grunnrekstri sem við höfum þó tækifæri til að bæta enn frekar."

Helstu tíðindi og áfangar á árinu:

 • Í apríl var vörumerkinu Shell, sem um áratuga skeið hafði verið á þjónustustöðvum félagsins, skipt út fyrir vörumerkið Skeljungur. Samstarf félagsins við Shell heldur þó áfram á ýmsum vettvangi svo sem í smurolíum, öryggis- og gæðamálum o.fl.
 • Það er stefna Skeljungs að vera leiðandi í  breytingum á eldsneytismarkaði. Hluti af þeirri framtíðarsýn er þátttaka í evrópska samstarfsverkefninu, European Fuel Cells and Hydrogen Joint Undertaking, sem fellur undir verkefnið H2ME-2 - www.h2me.eu., sem stýrt er af Evrópusambandinu. Af því leiddi stofnun Íslenska vetnisfélagsins ehf. á árinu 2015. Mikil vinna fór fram við að þróa hugmyndina á árinu 2016 og nýverið hlaut félagið styrk að fjárhæð 2,7 m. evra frá Evrópusambandinu til byggingar þriggja vetnisstöðva og munu stöðvarnar verða teknar í notkun á árunum 2018-2019. Uppbyggingin verður unnin í samvinnu við norska fyrirtækið Nel ASA. Samhliða mun Skeljungur hefja uppbyggingu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla sem byggir enn frekar undir þá stefnu félagsins að vera fyrsti valkostur bifreiðaeigenda óháð orkugjafa.
 • Hlutabréf í Skeljungi voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland þann 9. desember en áður hafði 31,5% hlutur í félaginu verið seldur. Umfram eftirspurn var í útboði félagins, sem lauk þann 30. nóvember. Hluthafar félagsins í árslok voru um 1.900 en höfðu verið tveir fram að því.
 • Undir árslok tilkynnti Skeljungur að náðst hefði samkomulag við Arion banka,  Bank Nordik og Eik banka í Færeyjum um helstu skilmála og kjör vegna endurfjármögnunar allra skulda samstæðunnar. Samkvæmt  nýjum lánaskilmálum reiknar félagið með að fjármögnunarkostnaður félagsins geti lækkað um allt að 160 - 170 m.kr. á ársgrundvelli, auk þess sem hið nýja fyrirkomulag dregur úr gjaldeyrisáhættu félagsins vegna eignarhluta þess í dótturfélaginu Magn í Færeyjum. Reiknað er með að samningsgerð ljúki fyrir lok fyrsta ársfjórðungs.

Kynningarfundur

Opinn kynningarfundur vegna ársuppgjörs félagsins verður haldinn á Nordica Hilton Reykjavík, fundarsal I, föstudaginn 17. febrúar 2017. Fundurinn hefst kl. 08:30 en boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 08:15. Þar munu stjórnendur félagsins fara yfir uppgjör og horfur.

Allt efni fundarins verður aðgengilegt fjárfestum að honum loknum á heimasíðu Skeljungs, www.skeljungur.is/fjarfestar, sem og á fréttasíðu Nasdaq Iceland. 

  

Fjárhagsdagatal 2017

Aðalfundur 2017 - 16. mars 2017

Uppgjör 1F 2017 -  27. apríl 2017

Uppgjör 2F 2017 - 24. ágúst 2017

Uppgjör 3F 2017 - 26. október 2017

Nánari upplýsingar veitir Valgeir M. Baldursson, forstjóri í síma 840-3022 og í gegnum netfangið fjarfestar@skeljungur.is

HUG#2079544